Thursday, May 3, 2012

sárar minningar

Þegar ég varð ólétt af Jakobi þá ákvað ég að skrá mig í bumbuhóp á netinu. Ákvað að það væri ágætt svona í ljós þess að þetta væri síðasta skiptið sem ég ætlaði ganga með barn og því ekki seinna vænna en að gera það almennilega.
Í þessum hópi eru yndislegar konur. Við erum búnar að spjalla saman frá því að krílin okkar voru pínulitlar baunir og erum í dag að ráðfæra okkur við hvor aðra í sambandi við grauta og grænmeti, bleyjubruna og barnagrát. Algjörlega ómetanlegt að eiga svona vinkonur. Við erum líka duglegar að hittast með krílin og er það alltaf jafn notalegt.


Um daginn vorum við að ræða um minningar úr fæðingunni. Sumar eiga yndislega minningu meðan aðrar eiga bara alls ekkert yndislega minningu.


Ég fór að hugsa um mína minningu og maginn minn fór enn einu sinni á hvolf.
Ég hugsaði um það hversu miklar væntingar ég var með til fæðingarinnar. Mig var búið að hlakka svo mikið til að fæða þennan dreng. Eigandi tvær góðar fæðingar að baki þá bjóst ég ekki við öðru en að ég myndi eiga góða fæðingu í þetta skiptið.
Ég get eiginlega sagt að ég hafi misst af fæðingunni. Sat hérna heima með mömmu og strákunum kl 16 og var með smá verki en hélt ekki að nokkuð væri að gerast. Drengurinn fæddist kl 17:55 og hefði getað komið fyrr ef ég hefði ekki kunnað að purra til að halda aftur af rembingnum. Hann fæddist fimm mínútum eftir komu á hreiðrið. 
Þar fóru allar mínar væntingar um fallegt og rólegt fæðingaferli í baði með jógatónlist. En græt það svosem ekki ;)


En ástæðan fyrir því að maginn minn fer á hvolf þegar ég hugsa um fæðinguna er ekki fæðingin sjálf heldur tíminn eftir fæðinguna. Tíminn þar sem við héldum að heimurinn hefði hrunið. Tíminn þar sem við grétum svo sárt.
Mér finnst svo erfitt að hugsa um þennan tíma. Finnst óendanlega erfitt að hugsa til þess að mér hafi liðið svona. 


Horfi á gullmolann minn í dag og elska hann útaf lífinu og samviskubitið yfir þessum tilfinningum í upphafi lífs hans nístir inn að beini.


Ég veit alveg að þessar tilfinningar voru fullkomlega eðlilegar og að langflestir ef ekki allir sem eignast barn með downs heilkenni ganga í gegnum þennan pakka. En ég get samt ekki horft framhjá sársaukanum sem fylgir því að hafa liðið svona.


Ætli sársaukinn yfir þessum tilfinningum hverfi nokkurn tímann?