Thursday, July 5, 2012

Markmið meistarans

Í dag var fundur á greiningastöðinni með teyminu hans Jakobs. Þetta var sjúkraþjálfarinn hans, þroskaþjálfinn, barnalæknirinn og félagsráðgjafinn. Farið var yfir það helsta sem við erum búin að vera að vinna með síðan hann fæddist og svo voru skoðuð markmið sem við eigum að vinna að og aðeins pælt í framtíðinni með leikskóla start og þess háttar.

Í heildina litið eru þau mjög ánægð með Jakob. Sjúkraþjálfarinn gerði einhvers konar mat á honum og sagði að hann hefði komið vel út úr því og að við ættum að halda áfram á sömu braut. Hann þarf enn örvun og þjálfun og við megum ekki sofna á verðinum.
Margir hafa spurt mig hvort hann sé ekki ekstra duglegur. Fólk (fjölskylda og vinir) er alveg sannfært um að hann hljóti að skara framúr öðrum börnum með downs. Hanna sjúkraþjálfari vill ekkert vera að hrósa of mikið og ég átta mig alveg á af hverju það er. Hún er hrædd um að þá minnki maður kröfurnar og minnki þjálfunina. En ég fékk á tilfinninguna að hann Jakob okkar sé alveg einstaklega duglegur og athugull og sterkur strákur. Þau voru öll sammála um það og sammála um að við höfum verið að gera góða hluti þessa 7 mánuði og því ætlum við að halda áfram á sömu braut. Vöðvaspennan er að sjálfsögðu ennþá lág og hann þarf sína þjálfun. Þegar hann lærir eitthvað nýtt þá þurfum við alltaf að vera tilbúin að kenna honum meira og meira svo hann staðni ekki bara þar sem hann er.

Nú er hann kominn í sumarfrí frá sjúkraþjálfuninni sem þýðir að við þurfum að vera enn duglegri. Við erum komin með fullt af blöðum þar sem eru skráð niður markmiðin sem hann þarf að ná einhvern tímann fyrir eins árs aldur og það gerir okkur aðeins auðveldara fyrir. Við höfum eitthvað að stefna að og lokaniðurstaðan verður einn lítill snillingur og meistari Jakob :)