Tuesday, November 6, 2012

Ný viðhorf.

Er búin að vera lengi á leiðinni að blogga en sest svo sjaldan við tölvu að ég hef hreinlega ekki komið mér í það.

Byrjaði líka í nýrri vinnu 15. október og það er sko alveg búið að vera meira en nóg á að taka þar og í hausnum á mér í sambland við stanslausar eyrnabólgur hjá kobba kút.

Ég sem sagt byrjaði að vinna á Rjóðrinu í október. Rjóðrið er hvíldarheimili fyrir langveik, fötluð börn. Þeir sem muna eftir söfnuninni á allra vörum, þá erum við að tala um öll þau veiku börn sem komu fram í fjáröflunarþættinu. Veikustu veiku börn íslands.
Þessi staður er yndislegur. Allt voða heimilislegt og kósý og vel hugsað um börnin. Starfsfólkið yndislegt og ég held bara að ég eigi eftir að finna mig vel þarna. Auðvitað er margt að læra en það kemur allt með tíð og tíma...það fæðist enginn meistari :)

En eftir að ég byrjaði hafa margar hugsanir farið í gegnum höfuðið á mér. Hef margsinnis hugsað hvað í fjáranum ég hef verið að væla. Var á tímabili að hugsa um að loka þessu bloggi því  mér fannst mínar hugsanir og vangaveltur svo ómerkilegar miðað við það sem foreldrar þessara barna þurfa að díla við. 
En áttaði mig svo á því að ég er ekkert að væla. Ég er að ganga í gegnum eitthvað sem ÉG hef aldrei gengið í gegnum áður. Mér finnst það alveg erfitt á köflum og það hjálpar að skrifa um það því þá eru tilfinningarnar ekki eins óyfirstíganlegar. Einnig veit ég hversu mikið blogg annarra hjálpaði mér í byrjun þannig að ég held áfram... þó svo ég viti svosem að óyfirstíganlegu hlutunum mun fækka eftir því sem tíminn í rjóðrinu lengist. 

Eftir að Jakob fæddist hef ég oft heyrt fólk segja að ef það mætti velja sér fötlun myndi það velja Downs. Hefur alltaf fundist þetta spes en skil svosem alveg hvað fólk er að meina. Það er rosalega mikið lagt á margar fjölskyldur. Ansi margt sem fólk þarf að kljást og glíma við dagsdaglega og það sem við höfum og munum glíma við kemst ekki í hálfkvisti við það.

Ég dáist af þessu fólki og þessum yndislegu börnum og hlakka til að takast á við verkefni framtíðarinnar.

Ég er sátt við mitt hlutskipti í lífinu og þakka daglega fyrir gullmolana mína þrjá <3