Monday, May 13, 2013

fordómar og fáfræði.

Nokkur kvöld á síðustu vikum hef ég setið með tæplega 10 ára syni mínum og rætt orðanotkun barna í bekknum hans. Held reyndar að bekkurinn hans sé alls ekkert einsdæmi þegar kemur að því hvernig sum orðin eru notuð í daglegu tali. 
En orðin sem við sitjum og ræðum eru orð eins og mongólíti, þroskaheftur og fatlaður. 
Elsku sonur minn er svo leiður yfir því að hann skuli vera sá eini í sínum bekk sem finnst nákvæmlega ekkert að því að vera fatlaður.
Krakkarnir skvetta þessum orðum oft og mörgum sinnum yfir daginn. Mongólítinn þinn... ertu þroskaheftur.... ertu fatlaður... osfrv.
Arnar Máni skilur alveg að með þessu er verið að gera lítið úr bróður hans og það særir hann svo djúpt. Hann spurði einn strákinn í dag hvort hann vissi hvað mongólíti væri og hann svaraði "já það er að vera fatlaður og asnalegur" en Arnar sagði honum að það væri sko bara að vera með downs eins og bróðir hans er með en fékk tilbaka "mongólítar eru skrýtnir og asnalegir". Og þetta sagði hann mér með tárin í augunum og finnst það ofsalega sorglegt að vinir hans skulu ekki geta séð bróður sinn eins og hann sér hann... sem fullkominn, fallegan og duglegan EINSTAKLING, MANNESKJU, sem er alveg eins og ég og þú og allir hinir.
Hann segir sjálfur að það sé ekkert erfitt að eiga fatlaðan bróður og honum er alveg sama þótt bróðir hans sé með downs... það sem er erfiðast er að aðrir þurfi að sjá hann sem eitthvað öðruvísi og skrýtinn.

Með þessu bloggi langar mig að vekja athygli þeirra sem nenna að lesa þetta á því hvernig við notum orðin í daglegu tali. 
Ég veit alveg að ekkert slæmt liggur að baki og að þó svo að maður segi að einhver sé mongólíti þá sé maður ekki vísvitandi að meina að hann sé eins og einstaklingur með downs.... en mikið ofsalega væri ég til í að fólk yrði meðvitaðara um það hvernig það talar.... og sérstaklega í návist barnanna sinna. 
Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og ef svona orðaforði viðhefst á heimilinu þá smitast það til barnanna. 

Mörg börn eru uppfull af fordómum í garð fatlaðra og það kemur eingöngu af fáfræði... fræðum börnin okkar um að fatlað fólk er bara fólk eins og við... fólk  með líf, tilfinningar og fjölskyldur sem elska þau meira en allt.