Friday, January 11, 2013

Framfarir.

Meistari Jakob er orðinn eins árs og rúmlega mánuði betur.
Hann fagnaði afmælisdeginum á leikskólanum. Fékk kórónu og átti góðan dag.
 Svo kom hann heim og tók á móti gestum og var hrókur alls fagnaðar. Honum þykir ofsa gaman í fjölmenni og sýndi oft og iðullega hversu stór hann væri orðinn.

Hann er enn í stöðugum æfingum. Bæði hér heima, á leikskólanum og hjá sjúkraþjálfara tvisvar í viku. Hann stendur sig vel en við þurfum samt að vera duglegri við að þjálfa hann hér heima.
Ég er farin að finna töluvert meira fyrir því núna að hann er seinni til en jafnaldrar sínir. Fann það á afmælisdaginn þegar við gáfum honum afmælisgjöf. Man svo vel eftir viðbrögðum strákanna þar sem þeir tóku við afmælisgjöfinni og fóru svo glaðir að leika með hana. Jakob varð mjög glaður en hann hefði pottþétt orðið glaður líka þó við hefðum bara rétt honum gamla hringlu sem hann átti. Hann varð aðallega glaður að hafa okkur öll í kringum sig að taka af sér myndir :)

Situr eins og kóngur á palli í leikskólanum

Hann er ekki enn farinn að hreyfa sig úr stað af ráði. Við reynum daglega að örva það en hann er mjög þrjóskur að eðlisfari og fer í mikla fýlu ef til of mikils er ætlast af honum. Hann er líka einstaklega pestsækinn og iðullega lasinn og þá er líka erfitt að vera í stífri þjálfun.
Hann veltir sér út um allt og er að byrja rúlla sér meðvitað að ákveðnum hlut eða manneskju. En að toga sig áfram nennir hann ekki. Einstaka sinnum ýtir hann sér óvart afturábak og verður ofsalega pirraður þegar það gerist því þá færist hann fjær dótinu sínu.

Hann elskar að standa og finnst hann vera flottastur í heimi þegar hann stendur uppvið borð. Einnig er hann farinn að hendast um öll gólf í göngugrindinni sinni og þegar hann fattaði að hann gæti það þá varð hann mjög hamingjusamur.

En þetta lærist allt saman... það krefst bara aðeins meira, bæði af honum og af okkur. Og einmitt þess vegna held ég að þegar hann afrekar eitthvað af því sem maður er búinn að æfa þá er stoltið ofboðslega mikið. Ég var alltaf mjög stolt af strákunum þegar þeir lærðu eitthvað nýtt en tilfinningin er önnur með Jakob. Stoltið er sterkara því maður er búinn að vinna svo markvisst að markmiðinu og það er svo æðislegt þegar því er náð.

Hérna er hann í æfingum í leikskólanum.


Málþroskinn er líka seinni. Sem er fullkomlega eðlilegt. Mikið er unnið með Tákn með tali í leikskólanum og reynum við að vera dugleg hérna heima líka. Stundum finnst mér eins og hann sé farinn að sýna einstök tákn en það getur vel verið að það sé bara óskhyggja hjá mér. En þetta kemur allt saman. 
Hann kann að segja mamma og babba en það heyrist eingöngu þegar hann er orðinn mjög fúll og búinn að gráta í nokkurn tíma, þá splæsir maður í orðin.

Jakob er líka einstaklega heppinn að eiga tvo stóra bræður. Þeim finnst þeir líka ofsa heppnir að eiga hann. Hreinlega elska að sprella fyrir framan hann og láta hann hlæja. Svo eru þeir ofsa góðar barnapíur ef maður þarf að skreppa í sturtu og svoleiðis. Arnar Máni getur svoleiðis djöflast með hann um allt og tekur hann meira að segja stundum inn í herbergið sitt þegar hann er þar inni að leika við vini sína.

Jakob lætur hafa fyrir sér en það er sko allt í lagi því hann bætir það upp með hlátri, brosum og krúttlegheitum. 
Það er sko yndislegt að fá að vera mamma hans.


No comments:

Post a Comment