Saturday, June 16, 2012

Þegar börnin á heimilinu eru fleiri en fullorðnir

Þegar fólk eignast barn breytist margt í lífi þeirra. Þegar Arnar Máni fæddist breyttist lífið vissulega en það var mjúk breyting. Allt gekk eins og í sögu og svifið var um á bleiku skýi.
Þegar Haukur svo fæddist voru hlutirnir ekki eins smurðir. Það tók alveg á að eiga allt í einu tvö börn og búa í pínulítilli kollegi íbúð. Arnar Máni var afbrýðissamur og Haukur órólegur. Suma daga langaði mig bara að leggjast niður og gráta. En við komumst í gegnum þennan tíma og lengi vel fannst mér það bara alveg nóg að eiga þá tvo. Ég treysti mér hreinlega ekki í þennan pakka aftur. Fannst stökkið úr einu í tvö agalega stórt.

Svo ákváðum við að koma eitt í viðbót. Vorum komin nógu langt frá þessum tíma að við vorum byrjuð að gleyma. Ég get reyndar alveg sagt að mér finnst stökkið úr tveimur í þrjú ekki eins stórt og mér fannst það úr einu í tvö.
En suma daga..... úff þá langar mig bara að grafa mig undir sæng og óska þess að enginn sjái mig í nokkra klukkutíma.
Sérstaklega á nóttunni. Jakob hefur verið að vakna ansi ört síðustu mánuði. Vill drekka aftur og aftur. Við tókum á því fyrir tveim vikum og ég svaf í stofunni. Hann tók þessu alveg furðuvel og fékk ekkert að drekka í  8-9 tíma og var bara alveg sama. En vaknaði samt alveg nokkrum sinnum. Ég var alveg viss um að hann ætti bara eftir að læra að sofa allan þennan tíma.... en það virðist ekki lærast. Undantekningalaust vaknar hann kl 3 og er með brjálað vesen til 4 og sefur þá til hálf sex og vill drekka, fær það og vill svo bara hanga á túttunni þangað til mamman nennir framúr. 
Þetta væri kannski ekki svo slæmt og alveg yfirstíganlegt ef hinir drengirnir væru ekki með vesen á sama tíma. Arnar Máni gengur í svefni og fer á klósettið að minnsta kosti 3 á nóttu. Haukur er búinn að vera með pínulítið hjarta í nokkrar vikur og kemur oft og iðullega uppí á nóttunni. Og þeir eru yfirleitt með sitt vesen rétt á meðan Jakob sefur.
Sumar nætur sit ég og mig langar að öskra... ég hélt að maður ætti að sofa á nóttunni!

En þetta er víst partur af þessu foreldrahlutverki sem suma daga vex mér í augum en aðra daga finnst mér það yndislegasta hlutverk í heimi.

Ég hef mikið spáð í hvað ég er að blogga um. Hvort bloggið mitt eigi bara að snúast um uppeldi á Jakobi eða líka á stóru strákunum. Hef eitthvað átt erfitt með að tala um þeirra vandamál því þeir eru orðnir svo stórir en ég finn að ég þarf líka alveg að tala um þá. Ákkurat núna þá er það sko ekki það að ég á barn með downs sem fyllir daginn minn. Nei við glímum alveg við vandamál hjá hinum líka. 

Haukur hefur alltaf verið viðkvæm sál. Frá fæðingu gat maður séð dramatíkina í grátnum hans. 
Mjög fljótt kom i ljós litla hjartað. Hann var hræddur við ansi margt. Hundar og önnur dýr voru hrikaleg í hans huga og hjartað byrjaði að hamast ef hann sá hund í kílómetersfjarlægð.
Þegar hann var tveggja og hálfs varð hann hræddur við styttur. Steinunn var að passa hann og þau stoppuðu við mann sem var búinn að mála sig eins og stytta. Svo setti einhver pening og kallinn byrjaði að hreyfa sig og Haukur gjörsamlega fríkaði út. Í langan tíma var varla hægt að labba með hann um kaupmannahöfn því hann var alveg viss um að stytturnar gætu allar hreyft sig. Þessi hræðsla rjátlaði af honum með tímanum.
Núna sefur hann ekki vegna hræðslu við risann úr Góa og baunagrasinu.

Síðasta sumar náði Haukur að vinna bug á dýrahræðslunni. Hann fór á hestbak í leikskólanum og það var eins og það hefði bara slokknað á hræðslunni.

En þá tók bara eitthvað annað við. Hann fór að eiga erfiðara með félagsleg samskipti. Honum var boðið í afmæli hjá einni í leikskólanum og gat ekki hugsað sér að fara. Hann hengir sig á stóra bróður sinn við hvert tækifæri og á mjög erfitt með að gera nokkurn skapaðan hlut án hans.
Hann þjáist einnig af miklum aðskilnaðarkvíða þegar kemur að mér. Á mjög erfitt með að leyfa mér að skila sér í leikskólann. Læsir sér í mig og bara í síðustu viku þurfti að rífa hann gargandi úr fanginu á mér.

Við leituðum til sálfræðings sem staðfesti grun okkar um að hann þjáist af kvíða. Hún sagði jafnframt að hann eigi að öllum líkindum alltaf eftir að þjást af kvíða en að við getum hjálpað honum að tækla það og þá verður þetta ekki alltaf svona erfitt. Hún gaf okkur góð ráð og nú vinnum við með þau og Haukur vinnur í því að verða hugrakkari og hugrakkari. Vonandi náum við að byggja upp gott sjálfstraust fyrir skólabyrjun.

Úff já það er alveg meira en að segja það að eiga þrjú börn.

3 comments:

  1. Uff ja, thad er greinilega nog ad gera hjå ykkur. Merkilegt hvad madur gleymir fljott svefnlitlum nottum....
    Thid erud mega hjón sem mer finnst standa sig storkostlega i barnauppeldinu! GO THID! :-)

    ReplyDelete
  2. Uff ja, thad er greinilega nog ad gera hjå ykkur. Merkilegt hvad madur gleymir fljott svefnlitlum nottum....
    Thid erud mega hjón sem mer finnst standa sig storkostlega i barnauppeldinu! GO THID! :-)

    ReplyDelete
  3. Yndisleg færsla... svo rétt hjá þér. Þrátt fyrir að eiga barn með downs þá fillir það ekki upp dagskrá dagsins. Auðvitað nóg að gera en það geta líka verið hlutir hjá hinum börnunum sem þarf að díla við;) Knús á ykkur
    S

    ReplyDelete