Saturday, June 9, 2012

Litli duglegi kúturinn

Ég hef verið eitthvað andlaus undanfarið.
Suma daga hreint elska ég að vera í fæðingarorlofi. Sérstaklega þegar sólin skín og heitt er úti og Jakob er hress og kátur og sefur vel. Aðra daga er þetta bara alls ekkert eins skemmtilegt og ég sit ein í draslsprengju á heimilinu mínu og nenni ekki út því ég meika ekki að þurfa að labba upp tröppurnar aftur.
Fyrir ykkur sem ekki vitið þá búum við á 4. hæð og það er engin lyfta í húsinu. Það kemur oft fyrir að ég kem mér út snemma á morgnana og pakka niður farangri fyrir daginn svo ég þurfi ekki að koma aftur heim fyrr en seinnipartinn.
Bónusferðir verða líka að vera vel skipulagðar. Reyni stundum að fara bara seinnipartinn í bónus því þá getur Gummi hjálpað að til við að bera pokana upp. Það er ekkert grín að fara margar ferðir upp þessar tröppur sko!
En þetta heldur mér í formi og það er það eina jákvæða við þetta allt saman.


Jakobi gengur vel í lífinu. Vorum hjá sjúkraþjálfara á þriðjudaginn og hún var ofsa ánægð með hann. Sagði að við værum greinilega búin að vera að vinna heimavinnuna :) Og mér sem finnst eins og ég geri aldrei neitt. En ég er greinilega alltaf að gera eitthvað án þess að taka endilega eftir því.

Hann stendur sig svo vel þessi elska. Er duglegur að taka við leikföngum og éta þau. Notar magavöðvana sína til að lyfta upp fótum og grípur í tásur og étur. Veltir sér yfir á magan og er reyndar farinn að liggja þar eins og selur og öskra og baða út höndum þar til ég kem og velti honum tilbaka. Næsta verkefni er að mastera veltuna tilbaka. Einnig erum við alltaf í setæfingum. Hann er svo athugull og vill vera svo mikið uppréttur að fylgjast með og finnst ofsa erfitt að geta þetta ekki sjálfur. En þetta er allt að koma og hann verður farinn að sitja áður en ég veit af :)


Þann 21. júní ætlum við að fara á námskeið í tákn með tali og þurfum að fara að æfa okkur í að nota það.
Við vitum nefninlega ekkert hversu duglegur Jakob mun verða í að tjá sig eða hversu skýr hann verður. Þess vegna er mikilvægt að við tileinkum okkur það að nota táknin svo hann geti alltaf gert sig skiljanlegan. Tákn með tali nýtist nefninlega ótrúlega vel fyrir öll börn. Þau eru svo oft tilbúin til að tjá sig miklu fyrr en þau geta það mállega séð.

Litli grísinn er líka farinn að gera mikinn mannamun á fólki. Það tekur hann alveg svolítinn tíma að átta sig á nýjum andlitum og nýrri rödd. Svo yfirleitt getur hann gefið fólki smá bros ef hann er sáttur við þau. En einni manneskju vill hann ekki gefa bros heldur setur hann upp stóra skeifu og rekur upp rokur. Og þessi maður er pabbi minn :(.
Ég er svo miður mín yfir þessu því pabba finnst hann algjört æði og langar ekkert meira en að spjalla við hann og leika en hann orgar bara eins og stunginn grís við það eitt að heyra röddina í pabba.

En ég heyrði að þetta væri þroskamerki og öll þroskamerki eru jákvæð þannig að við verðum víst að bíta í það súra og vona að hann venjist pabba og sjái hvaða gull af manni hann hefur að geyma. Því ég efast ekki um að áður en við vitum af mun Jakob ekki sjá sólina fyrir pabba mínum :)









1 comment:

  1. En gaman að fá að fylgjast með;) skil þig ósköp vel með tröppurnar! upp með ungana, töskur, poka og allt sem þeim fylgir! ég skil oft helminginn eftir í bílnum og þarf þó ekki að fara upp eina einustu tröppu;) knúús á ykkur og gott að Jakob sé svona rosa duglegur, vonandi að maður kíki heim í sumar og fái að hitta hann og ykkur;) ♥

    ReplyDelete