Tuesday, August 21, 2012

orð sem særa

Í sumar fórum við á sumarhátið Downs félagsins og ég fór að spjalla við eina mömmuna í hópnum. Hún tæplega 6 ára strák með downs og svo eina eldri stelpu. Við vorum að spjalla um hvernig eldri stelpan hefur tæklað þetta allt saman þar sem mig vantaði ráð til að hjálpa strákunum mínum að tækla þetta allt saman.
Hún sagði svolítið sem sat eftir hjá mér og ég hef reynt að taka til mín. "orð særa bara ef maður heyrir þau sjaldan, eða þau eru ókunn"
Það sem hún var að meina með þessu er auðvitað að orð eins og þroskaheftur, mongólíti, fatlaður... allt eru þetta orð sem eru í daglegu tali oftar notuð um eitthvað allt annað en það sem þau þýða.

Ég spurði Arnar Mána stuttu seinna hvort hann vissi hvað mongólíti væri og hann svaraði "já, einhver sem er alveg ógeðslega leiðinlegur!"
Úff hvað það stakk í hjartað að heyra. Ég útskýrði fyrir honum hvað orðið þýddi... við kjósum reyndar ekki að nota orðið mongólíti þegar við tölum um persónur með downs heilkenni. Einungis vegna þess hvernig orðið hefur verið notað í daglegu tali. En ég vil undirbúa strákana undir að einhvern tíma munu þeir heyra einhvern segja þetta um bróðir sinn, eða aðra með downs og ég vil ekki að það særi þá.

Einnig veit ég að fólk notar þetta orð án þess að fatta það. Ég gerði það sjálf en í dag hringja einhverjar bjöllur í hausnum á mér þegar orðið er á leið fram á tunguna og ég hætti við. En ég hef líka oft hugsað hvort fólk sé stundum eitthvað á nálum í kringum okkur og sé ekstra mikið að passa hvernig það talar. Að missa ekki út úr sér "vá hvað hann er mikið mongó" eða eitthvað þvíumlíkt.
Ég vil ekki að fólk sé endilega að passa sig í kringum okkur. Auðvitað vona ég að allir verði meðvitaðari um hvernig við notum orðin í daglegu tali en það að segja að einhver sem er asnalegur sé algjört mongó er ekki það sama og að segja að hann sé alveg eins og einstaklingur með downs. Orðið hefur fyrir löngu fengið allt aðra þýðingu og það er þess vegna sem ég kýs að nota það ekki þegar ég tala um Jakob. 

Jakob er með downs heilkenni, hann er með þroskahömlun og hann er fatlaður. Sumir horfa kannski öðruvísi á það og hugsa að hann sé þroskaheftur og mongólíti en þannig sé ég hann ekki og mun aldrei sjá hann með þeim augum.



3 comments:

  1. Það fyrsta sem ég tek eftir á Jakobi á þessari mynd eru sætu fellingarnar. Alveg eins og bræður sínir þegar þeir voru litlir!

    En hvað varðar orð sem særa þá erum við manneskjurnar því miður allt of oft særandi af hreinu og kláru hugsunarleysi. Við segjum vanhuguð orð og áttum okkur stundum ekki einu sinni á því að þau særi aðra.
    Það að fólk passi á sér tunguna í kring um ykkur finnst mér bara hið besta mál. það er mögulega skref í áttina að færri særindum.

    Mér finnst þú ótrúlega dugleg að hugsa um viðbrögð, hugsanir og vangaveltur stóru strákanna þinna. Þú ert hetja Fjóla mín og ég er stolt af þér.

    Love!

    ReplyDelete
  2. Já Fjóla ég gæti ekki orðað þetta betur sjálf... var eins og ég væri að lesa eitthvað eftir mig hahaha... Er svo alveg sammála þér í þessu og vá hvað gullstykkið ykkar er fallegur og dafnar vel. Yndislegt að sjá hvað hann er duglegur að sitja. :) Þeir verða einfaldlega flottastir saman vinirnir.... V biður fyrir orku og framfara kveðjum
    S og co

    ReplyDelete
  3. Svo hjartanlega sammála þér Fjóla. Þú ert ofurmamma og strákarnir þínir eru heppnir að eiga þig.
    Þetta eru mjög svipaðar pælingar og umræður og ég hef átt við birtu um orðin hommi og lesbía, sem einhverra hluta vegna hafa fengið neikvæða merkingu í samfélaginu. Ég veit ekki hversu oft fólk hefur notað orðin á niðrandi hátt og svo orðið mjooooog vandræðalegt að hafa sagt það fyrir framan mig. Þetta er bara eitthvað sem þarf að snúa við því að þessi orð öll sömul hafa bara alls ekki slæma merkingu

    ReplyDelete