Friday, November 1, 2013

Labbandi meistari

Er búin að vera svo lengi á leiðinni með nýtt blogg en hef ekki komið mér í það að setjast niður.

Viðbrögðin við síðasta blogginu mínu í maí fóru svo langt framúr mínum vonum að ég eiginlega fór hjá mér :) En mikið er ég hamingjusöm að hafa getað hvatt nokkra til smá viðhofsbreytinga.

Meistarinn minn heldur áfram að heilla okkur uppúr skónum. Hann tók sín fyrstu skref um daginn, nánar tiltekið 10. október og var því rétt rúmlega 22 mánaða.
Börn með Downs heilkenni eru yfirleitt seinni að taka sín fyrstu skref heldur en börn með eðlilegan litningafjölda. Þetta stafar m.a. af lágri vöðvaspennu og lausum liðamótum. Þess vegna þarf Jakob að vera í sjúkraþjálfun 2x í viku til að þjálfa sig og læra hluti sem annars væri eðlilegt að læra sjálf. Jakob þarf aukinn stuðning við flest. Svo mun hann ná tökum á þessu öllu saman með tímanum og geta gert nákvæmlega það sama og þú og ég getum... hann mun bara þurfa smá meiri tíma og stuðning en ég og þú þurftum.
fann hatt frá strákunum
og þá þarf að setja upp svipi
Börn með Downs eru yfirleitt að byrja að ganga allt frá 18 mánaða uppí 3 ára meðan önnur börn geta verið að læra þetta frá 9 mánaða uppí 18 mánaða.

En ég ætlaði að halda áfram að segja frá fyrstu skrefunum. Hann var í leikskólanum og þegar ég sótti hann sögðu þær mér að hann hefði tekið 3 skref og hann sýndi mér það og gekk til mín. Ég stóð þarna og veinaði uppyfir mig og augun mín fylltust af tárum. Svo fór ég með hann út í bíl með stærsta bros á vör og mér fannst eins og alheimurinn ætti að sjá af hverju ég var svona hamingjusöm.
Þegar Jakob fæddist og við fengum að vita að hann yrði seinni til með nánast alla hluti þá hefði mig ekki órað fyrir að ég yrði svona mikið stolt þegar hann tæki sín fyrstu skref... ég hélt ég myndi endalaust pæla í því að hann er í raun ári seinni en jafnaldrar sínir en ég pæli ekki í því. Hann gerir hlutina á sínum hraða og allt sem hann gerir í lífinu þarf hann að hafa aðeins meira fyrir en aðrir, hann þarf að leggja meira á sig en td. bræður hans þurftu og þess vegna verður maður aðeins meira stoltur held ég. Það að kenna honum að þora að sleppa af manni takinu og ná jafnvæginu er búið að taka tíma og vá hvað þessi tími er þess virði.

Nú reynir þessi moli að standa sjálfur upp á miðju gólfinu en rassinn er aðeins of þungur og hann missir hann niður en við höldum ótrauð áfram í að æfa og æfa. Skrefin eru mest orðin 10 þannig að þetta mjakast allt í réttu áttina.
Um daginn hélt þessi elska að hann gæti staðið upp og hlaupið til afa síns, æsingurinn var aðeins of mikill þegar hann hitti uppáhaldsvin sinn... Afi er nefninlega alveg einstaklega góður vinur hans Jakobs og vill hann hringja í hann í tíma og ótíma og situr þá og heldur sjálfur á símanum og hrópar og hlær til skiptis. Og ef ég reyni að ná símanum af honum þá annað hvort snýr hann sér undan eða grúfir sig ofan í maga svo ég geti það ekki.
Með afa í símanum

Táknin eru líka að koma mjög sterkt inn. Amma Guðrún var að passa hann um helgina og fékk hún að sjá að hann tjáir sig heilan helling... fólk þarf liggur við bara að setjast í fulla vinnu við að læra táknin svo hægt sé að skilja hann almennilega :)
Hann virðist aðeins vera að byrja að bæta við sig í babblinu og orðið mamma kemur einstaka sinnum í ljós en hann er ekki mikið fyrir að herma eftir hljóðum og horfir bara á mann eins og maður sér asni þegar maður er að ætlast til að hann hermi eftir því sem maður segir. En ég hef fulla trú á að hann komi bara með orðin þegar hann er tilbúinn til... hann gerir nefnilega bara hlutina eftir sínu höfði... litli þrjóskupúkinn.
hitti Lilla klifurmús og héraðsstubb bakara og var skíthræddur
Með pabba sínum

No comments:

Post a Comment