Monday, January 9, 2012

Here it goes...

Við Gummi eignuðumst þriðja drenginn okkar fyrir rúmum mánuði síðan. Þar sem ég verð í fæðingarorlofi næstu 8 mánuðina þá ákvað ég að byrja að blogga því allir vita hvað nýbakaðar mæður eru leiðinlegar á facebook og ætla ég því að reyna að forða mér frá því að verða leiðinleg og missa mig bara í barnatali og myndum hérna á blogginu... þeir geta lesið það sem vilja :)

Jakob fæddist 6. desember eftir mjög hraða fæðingu. Ég rétt náði að skríða inn á hreiður og ljósurnar rifu af mér buxurnar og hann hálfpartinn rann út.
Hann varð allur blár og líflaus þegar hann kom út, líklegast vegna þess að ég hafði haldið aftur af mér í rembingnum alla leið úr hafnarfirði og hann var löngu tilbúinn að koma út.
Það var klippt á strenginn og 2 læknar mættu á svæðið og gáfu honum súrefni og hann var fljótur að jafna sig.

Við fórum svo yfir í fjölskylduherbergi og strákarnir kíktu og við vorum hamingjusömustu foreldrar í heimi í 3 tíma.
Um kl 21 komu læknarnir með fréttirnar um að hann væri að öllum líkindum með downs og heimurinn okkar "hrundi". Hann fór í hjartaómun daginn eftir og sem betur fer er ekki um að ræða hjartagalla.
Næstu klukkutímar og dagar á eftir voru erfiðir en eitthvað sem þurfti að fara í gegnum til að komast þangað sem við erum komin núna. Við erum nokkurn veginn búin að púsla saman heiminum okkar aftur og erum nokkuð sátt við útkomuna.
Þetta litla líf hefur kennt mér svo margt á svo stuttum tíma. Ég horfi í daginn í dag og þakka fyrir litlu hlutina. Ég þakka fyrir að hann er eins hraustur og hann er og bið til guðs að hann verði ávallt það heilbrigður að honum og okkur líði vel.
Síðasta mánuðinn er ég búin að sörfa mikið á netinu og lesa blogg hjá mömmum barna með downs og það er búið að hjálpa mér heilan helling. Ég kvíði ekki lengur framtíðinni heldur hlakka til að takast á við þetta verkefni.
Það er sko ekkert sjálfgefið í þessum heimi að eignast heilbrigð börn en heilbrigði er ekki sama og fullkomnun í mínum huga því allir mínir strákar eru fullkomnir.
Ég ætla sko að njóta þessa fæðingarorlofs með þessum litla krútturassi sem ég yfir mig ástfangin af :)

4 comments:

  1. Hann er dásamlegur og þið megið sko vera ánægð með hann. Gangi ykkur vel Fjóla mín og ég hlakka til að hitta ykkur á röltinu um Fjörðinn.

    knús Hafdís Hinriks

    ReplyDelete
  2. Yndisleg lesning, hann Jakob litli er einstaklega heppinn að eiga ykkur að og ég hlakka mikið til að kynnast honum:)
    Kærleikskveðja Hafdís Björk

    ReplyDelete
  3. þú ert sko ekki ein um að vera yfir þig hrifin af krúttinu þínu, eðalprins hér á ferð:) kv, anna dóra

    ReplyDelete
  4. Hæ elsku Fjóla mín. Það er ekki hægt að setja sig í ykkar spor þegar maður hefur ekki upplifað það sjálfur, en ég get sko vel ímyndað mér að heimurinn hrynji um stundarsakir við svona fréttir. Ég hef alltaf sagt að fötluð börn og börn með sérþarfir séu mis heppin með foreldra (Auðvitað eru öll börn það en börn með sérþarfir þurfa bara oft lengur, meira og öðruvísi á foreldrum sínum að halda)Hann Jakob hefði ekki getað fengið betri foreldra!!! Þetta verkefni eigið þið eftir að takast á við með sóma og eigið án efa eftir að njóta allra góðu stundana í botn með öllum strákunum ykkar.

    Ég er búin að ætla að hringja og óska þér almennilega til hamingju með gullmolann alveg síðan hann fæddist en kenni gestagangi og jólaverkefnunum um að ég hef ekki ennþá gert það. (Léleg afsökun, æ nó)Lofa hér með að taka upp tólið á næstu dögum!

    Hlakka til að lesa bloggið þitt áfram.
    Knús frá Norge.

    ReplyDelete