Tuesday, January 10, 2012

Hnakkaþykktarmæling

Mjög margir hafa spurt okkur hvort við fórum ekki í hnakkaþykktarmælingu og mig langar að ræða það örlítið.
Þegar ég gekk með stóru strákana þá langaði mig í sónar eins snemma og hægt væri og það eina sem var í boði var hnakkaþykktarmæling.
Ég pældi ekki mikið í því hvað það þýddi því mig langaði mest að sjá barnið sem ég gekk með. Sem betur fer kom allt vel út úr þeim líkindareikningum því ég hafði aldrei hugleitt hvað ég myndi gera við slæmar niðurstöður.
Í þetta skipti gat ég farið í 12 vikna sónar án þess að mældar yrðu líkur á litningagöllum og ákváðum við að fara frekar í svoleiðis þar sem það eina við vildum var að sjá hvort barnið væri á lífi og hvort öll líffæri væru til staðar og svoleiðis.
Hugsaði mikið útí hvort við ættum að velja hnakkaþykktarmælinguna en við komumst að þeirri niðurstöðu að við vildum ekki vera sett í þá stöðu að þurfa að taka ákvörðun við 15 eða 16 vikur um hvort við vildum eiga barnið eða ekki.
Ég get ekki svarað hvað ég hefði gert ef ég hefði komist að því að ég gengi með barn með downs þegar ég var komin 15 vikur og ég er óendanlega fegin að hafa ekki sett mig í þá stöðu.
Ég dæmi samt engann sem velur að fara í líkindamat en ég vona að fólk hugsi aðeins útí hvað það er að fara í og hvað það vill gera við líkurnar og í hvaða stöðu fólk getur komist í.
Litla sólargeislanum okkar var ætlað að koma til okkar... það er ég sannfærð um. Og ég tekst á við það mikilvæga hlutverk að ala hann upp með allri þeirri ást sem ég hef að gefa (væmni 101) :):)

1 comment:

  1. Þegar ég var ófrísk af Helga Magnúsi var tekin blóðprufa og niðurstaðan var háar líkur á Downs. Ég var alla meðgögnuna óviss hvort hann yrði með Downs eða ekki. Ég ákvað að fara ekki í legvatnsstungu því ég vildi ekki taka áhættuna á fósturláti (sem eru um 1-2% líkur). Þetta eru erfið spor að standa í og þetta kenndi mér heilmikið. Ég tek undir með þér að fólk hugsi málið áður en það fer í líkindamat.

    ReplyDelete