Friday, January 13, 2012

Tilfinningaflæði

Það eru margar tilfinningar sem þjóta í gegnum mann þegar maður fær að vita að barnið sem maður var að fæða er með litningagalla.
Undir lok meðgöngunnar fékk ég einhvern grun um að eitthvað gæti verið að. Veit ekki alveg af hverju en það var eitthvað sem sagði mér að undirbúa mig. 
Vonir og væntingar eru svo miklar þegar maður bíður eftir barninu... hvernig lítur hann út... er hann örugglega hann eða sá hún vitlaust í sónar... er hann með hár... verður hann líkur bræðrum sínum og fleira og fleira.


Jakob líktist Arnari Mána við fæðingu. Hann var þó töluvert stærri og mjög bólginn og þrútinn eftir fæðinguna. 
Um leið og hann kom út kíkti ég framan í hann og fékk strax sting í magann því mér fannst ég fá smá staðfestan grun minn. Samt var ekkert afgerandi í útliti hans og þar sem enginn í kringum okkur nefndi neitt þá ákvað ég að þegja. Langaði sko ekki að hafa það á samviskunni seinna meir að hafa haldið að barnið væri með downs bara af því að hann var þrútinn eftir fæðingu.
En ég man ég sagði við Gumma meðan hann klæddi hann "erum við í alvöru svona heppin? Eigum við þrjá heilbrigða drengi?" Ég held að ég hafi undir niðri verið að fiska eftir hvort hann tæki eftir einhverju líka. 


Þegar svo læknarnir voru búnir að slá okkur utan undir með blautu tuskunni (afsakið orðbragðið en mér leið þannig) þá var bókstaflega eins og veröldin hrundi. Við vissum ekkert hvað þetta þýddi fyrir okkur.. fyrir framtíðina... fyrir stóru strákana okkar.
En á þessum mánuði hafa gerst stórmerkilegir hlutir. Lífið hefur breyst. Lífið breytist þegar maður eignast barn.. hvort sem það er fatlað eða ekki fatlað. En það sem hefur breyst allra mest er viðhorf mitt til lífsins. Mér datt ekki í hug að svona lítil persóna gæti breytt svona miklu.
Ég finn að ég hef öðlast mun meiri þolinmæði. Mér finnst ekki þess virði að missa þolinmæðina yfir smáhlutum lengur. Ég finn að ég nýt tímans með stóru stráknunum mínum miklu betur og mér finnst einfaldlega miklu miklu skemmtilegra að vera mamma.
Ég vona innilega að þessi breyting á viðhorfi mínu til lífsins sé komin til að vera því það er miklu skemmtilegra að lifa svona eins og mér líður núna.
Það er líka ekki annað hægt en að vera hamingjusamur þegar maður fær að knúsa þetta fallega andlit daginn út og inn :) 

1 comment:

  1. Enda eru stóru strákarnir snillingar og Jakob hreint út sagt yndislegur:)

    ReplyDelete